Fálkaorðan

Held að sá Íslendingur sem nær fyrstur að binda launasamning sinn við vísitölu neysluverðs ætti að fá fálkaorðuna. Sá maður/kona væri hinn mesti snillingur í mínum huga.

 

riddarakross


Spreðum peningum

Eftir hreint ágætis jólafrí í Þýskalandi er maður aftur mættur til starfa. Hið daglega amstur mun væntanlega taka við uppgötvunum þeim sem hugarfóstur mitt bar augum í Þýskalandi.

Þýskaland er eins og Ísland land bílanna. Þar er mikið keyrt. Hvort sem er innan bæjar eða á hraðbrautum. Ég er ennþá sannfærðari um nú en fyrr að Ísland á að eyða sem allra mest af peningum í samgöngur og menntun. Greiðar samgöngur gera ótrúlega hluti, og skapa ótrúleg tækifæri. Það verður bara að spreða eins miklu og hægt er í alls kyns samgöngur og ekki spara neitt til. Borum göng, byggjum stokka, byggjum vegamót á mörgum hæðum og höfum sem flesta akvegi tvíbreiða í báðar áttir. Þetta er niðurstaða mín frá Þýskalandi. Notum þjóðarauðinn í alltof góðar samgöngur um allt land.

Já :) ekki spurning.


Ég laug

Ég hagræddi sannleikanum í morgun.

Fimm ára sonur minn spurði mig: "Af hverju er ekki bara einn banki heldur margir bankar?"

Ég hugsaði mig um og svaraði: "Það er betra að hafa marga banka, því þá getur maður valið um hvar maður fær bauk til að safna peningum."

Þá spyr hann mig af hverju bankar séu til. Ég svara: "Bankar geyma peningana okkar."

Þá segir hann: "Eigum við svona mikla peninga, að það þarf að geyma þá í stærra húsi?"

og ég svara: "Já, eiginlega."

og hann segir: "Vá, hvað við eigum mikla peninga."

Eftir þetta samtal fannst mér ég ekki hafa svarað neinu réttu. Mér fannst ég ekki geta sagt honum það að pabbi hans er þræll bankans og keppist um það við hver mánaðamót að láta bankann hafa sem mest af peningum. Einnig fannst mér ég ekki geta logið að honum að bankarnir væru svo margir til þess að það væri samkeppni.


Upprunalegi tilgangurinn?

Hver var upprunalegi tilgangur Landsvirkjunar?

Jú, Akureyri, Reykjavík og Ríkið lögðu Landsvirkjun til hlutafé í formi virkjana. Tilgangurinn var að útvega íbúum og fyrirtækjum landsins orku á hagstæðu verði. Þannig átti að nýta auðlindir Íslands.

Nú hefur fyrirtækið gengið ansi langt í þessum efnum, og sjá stjórnendur þess fram á rólegri tíma. Já og hvað á þá að gera? Þegar að fyrirtækið ætti loksins að fara að skila almennilegum arði í ríkiskassann? Þá segja þessir herramenn í LV og stjórnarráðinu: "Förum í útrás svo verkfræðingar okkar og aðrir sérfræðingar hafi eitthvað að gera í framtíðinni!"

Þetta er arfavitlaust sjónarmið. Þegar að fjármagn borgarana er um að ræða, skal umgangast fjármagnið með varúð og virðingu. Tilgangur Landsvirkjunar var ekki að sjá verkfræðingum fyrir atvinnu, heldur þjóðinni fyrir orku. Það er lykilatriði í málinu. Sé þekking verkfræðingana svona ótrúleg, þá mega þeir fara að vinna hjá Geysi Green eða REI - þeir ættu að minnsta kosti ekki að vera í vandræðum með atvinnu. Sé "verkefnaskortur" framundan hjá Landsvirkjun, þá á fyrirtækið að sjálfsögðu að fækka starfsfólki. Ekki að fara í útrás í þriðja heiminum. Það er skömm að þessum hugmyndum sjálfstæðismanna.

Íslenska Ríkið á ekki að vera í sandkassaleik með fjármuni þegna sinna. - Eigenda sinna. Farið varlega með fyrirtæki sem byggir afkomu sína á þjóðarauðlindum Íslands. Lækkið skatta fremur en að fara í hjartnæm verkefni í þriðja heiminum.

Utan þessa alls hefur Landsvirkjun tekið eignarnámi ýmis fallvötn landsins, til að virkja í þágu landsmanna. Hvers vegna í ósköpunum ætti Landsvirkjun að framselja eignarnámið með einkavæðingu? Gísli Marteinn sagði í kvöldfréttum að það ætti að skapa "réttu" stemminguna þannig að hægt sé að einkavæða Landsvirkjun. BULL. BULL. BULL. Stundum skapast "rétt" stemming meðal knattspyrnubulla til ofbeldis. Stundum skapast "rétt" stemming unglinga til skemmdarverka. Vonandi skapast aldrei "rétt" stemming á alþingi til að gefa þjóðarauðlindir.

Nú þegar framkvæmdum Landsvirkjunar er lokið í bili, eiga stjórnendur að snúa sér að því sem önnur fyrirtæki gera, að reka fyrirtækið á sem hagkvæmastan hátt. Eigi Landsvirkjun góðar virkjanir er það ekki "snilld" sérfræðinga þeirra að þakka, heldur frábærri auðlind.

Að lokum:

Þegar að Hallgrímskirkja var kláruð, fór Þjóðkirkjan ekki í útrás þar sem búið var að byggja allar kirkjur á Íslandi í bili.


Draumabækur

Jólabækur sem ég væri tilbúinn að fá:

1. Ævisaga Davíðs Oddssonar, hispurslaus frásögn af stjórnarráðsdögum Davíðs og bernskunni. Dagur B. Eggertsson skrásetur, útgefandi Hrafn Gunnlaugsson.

2. Dómsdagur, hvernig verður Ísland mesta eftirlitssamfélag í heimi? Eftir Björn Bjarnason, útgefandi: Dómamálaráðuneytið.

3. Niðurrif Kárahnjúkavirkjunar, ljósmyndabók. Ljósmyndir frá niðurrifi virkjunarinnar. Eftir Kolbrúnu Halldórsdóttir. Útgefandi: Jakob Frímann.

4. Aumingja ég. Pólítískur ferill Kidda Sleggju. Eftir Jón Magnússon. Útgefandi: Alþýðubandalagið, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn, með stuðningi atvinnuþróunarfélags Vesturlands.

5. Ræðan langa. Ein ræða Steingríms Joð frá tímum óbreyttra þingskapa. Skrásett af www.althingi.is Útgefandi: Sturla Böðvarsson.

6. Ég má líka fara í útrás, eftir Össur Skarphéðinsson. Útgefandi: Hannes Smári.

7. Vín, bjór og sterk vín. Íslensk vínmenning í 2 ár. Eftir Sigurð Kára. Útgefandi: BónusVín ehf.

8. Surturinn. Raunsönn baráttusaga eftir Jón Magnússon. Útgefandi: Jón Magnússon

9. Bloggarinn, sagan af því hvernig ég náði milljón heimsóknum á dag, eftir Stefán Friðrik Stefánsson. Útgefandi: Mbl.is

10. Ég. Eftir Mig, Útgefandi: Þú


Jólahlaðborð

Í sjoppunni í Olís á Reyðarfirði varð ég vitni að eftirfarandi samtali í gær, þegar ég keypti mér einn grænan salem: 

Íslendingurinn: "Staff go to christmas platterform"

Pólverjinn: "Christmas Platterform?"

Íslendingurinn: "Jess, we have smoking lamb, meat, bulls, rjúpa, smoking and wines"

Pólverjinn: "Wine?"

Íslendingurinn: "Jess, wine."

Pólverjinn: "Vodka"

Íslendingurinn: "We have many jólaglögg"

Pólverjinn: "Vodka"

Íslengurinn: "Jess, vodka very good"

Pólverjinn: Me come.


Pervertísk handboltaviðtöl og HSÍ

HSÍ og nokkrir formenn félaga í hreyfingunni eru ósáttir við vefsíðuna handbolti.is þar sem að áhugamaður um handknattleik skrifar inn á kauplaust. Við hana er handknattleikshreyfingin virkilega ósátt, af því að hann gerir viðtöl og umfjallanir sem forystan telur vera fyrir neðan beltisstað. T.d. http://handbolti.is/?p=500&id=420&categoryid=9 Þó að í nokkrum viðtölum fréttamannsins við landsliðskonur Íslands megi finna pervertsískar kenndir spyrilsins, skiptir það máli?

Eiga þessir herramenn bara ekki að vera ánægðir með að einhver skuli nenna að fjalla um íþróttina í staðinn fyrir að reyna að ritstýra henni með frekjusímtölum og hótunum.

Handknattsleiksforystan fer hamförum þessa dagana með dramadrottninguna Einar Þorvarðar í fararbroddi. Þjálfarar sem tjá sig í hita leiksins eru dæmdir í langt keppnisbann án fordæma fyrir eitthvað sem þeir eiga að hafa sagt í viðtölum við fjölmiðla. Þar sem menn vilja meina að þjálfarar smáni íþróttina með einhverjum ummælum. Shit. Leyfun þjálfurunum að segja það sem þeir vilja, meðan það kemur handboltanum í fréttir.

Handknattleiksforystan hefur ekki verið öflug undanfarin ár, og hefur ekki tekist að gera úrvalsdeildirnar í handknattleik að því fréttaefni sem þær eiga að vera. Loks þegar þær komast í umræðuna fyrir krassandi ummæli þjálfarana þá er þeim snýtt með því að setja þá í keppnisbann.

Svo verður bara að segjast eins og er, að meðan HSÍ leggur ofuráherslu á landsliðið verður uppgangur deildarkeppninnar ekki mikill. HSÍ tekur m.a. alla bestu styrktaðilana frá félagsliðunum, í staðinn fyrir að hafa einn stórann, þá hafa þeir 18 styrktaraðila. HSÍ reddaði styrktaraðila fyrir úrvalsdeildina á síðustu stundu í haust, varla er hægt að gera góðan samning á síðustu stundu.

Til þess að handbolti fái umfjöllun þá þarf einfaldlega að taka saman fyrir fréttamenn áhugavert umfjöllunarefni. Eins og t.d. hver er markahæstur? Hver tapar flestum boltum? Hver skorar mest úr hraðaupphlaupum og svo framvegis. Þetta veit enginn blaðamaður hér á landi, og mun ekki vita. Það eru tildæmis ekki margir landsmenn sem vita hver var markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar í fyrra.


Nú um fermingar

Nú vill menntamálaráðherra fermingarfræðsluna út úr skólunum, út úr skólatíma.

Þetta er athyglisvert. Þegar að fermingarfræðslan er á sama tíma og annað góðmeti sem er utan skólatíma, hvað gerist þá? Þegar fermingarfræðslan verður farin að keppa við sjónvarp, tölvur, knattspyrnutíma, fimleikatíma og annað góðmeti þá er líklegt að niðurstaðan verði sú að á nokkrum árum hafi fermingarbörnum fækkað umtalsvert. Ætli það sé yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að fækka fermingarbörnum?

Þetta gæti verið slæmt fyrir kristið siðgæði í landinu. Eða hvað?


Skírnarsamfestingur?

Ég á 31 árs gamlan skírnarkjól, ég var skírður í honum og sonur minn var skírður í honum. Hann er með bláu skrauti. Væri rétt að banna það? Svo kjóllinn væri nú ókynbundinn? Eða væri réttara að fara með kjólinn á saumastofu og láta taka af honum bláa skrautið og breyta í skírnarsamfesting?


Drasl

Ég les alltaf íþróttafréttir í blöðunum og hef gert síðan ég 8 ára. 11 ára gamall byrjaði ég að bera út moggann, og ég las alltaf íþróttafréttirnar á forstofugólfinu áður en ég lagði af stað til að bera út blöðin. Þetta gerði ég í 5 ár. Síðan þá hef ég alltaf lesið íþróttafréttir.

Ég fékk hroll þegar ég las íþróttafréttirnar í 24stundum í dag.

Þær voru:

9 litlir stubbar þýddir af erlendum vefsíðum. 1 smáfrétt um að búið er að opna Bláfjöll og að lokum 1 frétt um að stúlkum mun vera hættara við höfuðmeiðslum í íþróttum en drengjum.

Ég á eitt orð: DRASL


Blaðamannaelíta Austurlands rekin út af Hótelinu

Stór hluti blaðamannaelítu Austurlands var staddur á Hótel Héraði í gærkvöldi. Partur af Elítunni hafði áfengi um hönd, meðan hinn hluti hennar drakk kóka kóla, öðru nafni sykurleðju með svörtum matarlit. Umtalsefni voru aðallega bókmenntir, og það austfirskar bókmenntir.

Á ákveðnum tímapunkti var stórum hluta viðstaddra farið að hungra til tóbaksreykinga. Þar sem að þjónustan á umræddu hóteli er tilviljanakennd og lítið um starfsfólk á barnum, tók einn blaðamaðurinn til bernskubreka, með þessum orðum "Ég alltaf verið á móti reglum," við þau orð kveikti hann sér í einni grænni Salem sígarettu við undrun viðstaddra. Því reykingar eru að sjálfsögðu bannaðar jafnt á barnum á Hótel Héraði sem öðrum börum landsins. Eftir drykklanga stund hafði öll blaðamannaelíta Austurlands smitast af reglubrjótnum og hafði fengið afnot af grænum salem pakka reglubrjótsins.

Þarna sat semsagt stór hluti blaðamannaelítu Austurlands og reykti tóbak í trássi við lög og reglur inn á virtasta bar bæjarins. Þegar að hópurinn hafði reykt tvær sígarettur á mann varð loks uppi fótur og fit meðal starfsmanna staðarins. Tóbaksreykur lék um húsakynni hótelsins og pólskættuð afgreiðslustúlka vatt sér að gestum sínum og sagði með pólskum hreim: "Even I don´t speak Icelandic, I know smoking is totally forbidden at bars and restaurants." Vakti það mikla undrun viðstaddra, og yppti blaðamannaelítan öxlum, rétt eins og þessi regla væri þeim gjörsamlega ókunn. Við það stóð.

Að vörmu spori kom svo íslenskur kvenmaður, allskapmikill og byrsti sig við elítuna sem sat all skömmustulegri undir vel völdum ekta íslenskum reiðipistli. Þetta íslenska kjarnakvendi lét að svo búnu ekki afsökunarbeiðni blaðamannana yfir sig ganga og rak þá hispurslaust út í frosthörkurnar  af miklum aga. Út af Hótel Héraði skildu þeir fara, með skömm. Við það búið hélt elítan heim á leið allskömmustuleg á svip.

Lítillega fært í stílinn.


Dæmi um "sameiginlegt" forræði

Dæmi um foreldra með sameiginlegt forræði þar sem barn dvelur jafnstóran part úr árinu hjá báðum foreldrum. Í þessu dæmi búa þau sitthvorum megin á landinu.
Einstæð móðir með sameiginlegt forræði og sama lögheimili og barnið:
Meðlag 18.000 á mánuði = 216 þús á ári (m.v. minnsta meðlag)
Barnabætur 20 þús á mánuði mán = 240 þús á ári
Samtals plús 456 þús á ársbasis
Einstæður faðir með sameiginlegt forræði og ekki sama lögheimili og barnið:
útgreitt Meðlag 18.000 á mánuði = -216 þús á ári (m.v. minnsta meðlag)
Barnabætur 0 kr. á mán = 0 kr.
Ferðakostnaður á ári = -100 þús (hóflega reiknað)
Samtals mínus 316 þús á ársbasis
________________________________________________
Samtals munur milli foreldra = 772 þús.
Er þetta réttlátt í ljósi þess að foreldrarnir hafa sama "kostnað" af barninu, veita sama húsaskjól og bera sama kostnað af daggæslu? Hvað segir jafnréttisstofa um þetta? Eða umboðsmaður alþingis? Eða félag einstæðra foreldra?
Mér er spurn....

Hrekkur gærdagsins

Títtnefndur Vífill frá Akranesi fær rós í hnappagatið frá mér fyrir að hafa ekki einungis þóst vera Ólafur Ragnar Grímsson, heldur líka fyrir að taka fréttastofu stöðvar 2 í kennslustund

Drengurinn virðist hafa stigið inn í heim frægðarinnar, og tekst að halda sér þar í fleiri daga en ég reiknaði með.

Fimm stjörnur fyrir þetta.


Ég er ekki viss

Í starfi mínu kemur "einstöku" sinnum upp staða þar sem ég er ekki alveg viss. Nú ber það undir að ég er ekki alveg viss. Ég þurfti að senda öllum sveitar/bæjarstjórum Austurlands lítið bréfkorn með sama texta og af því tilefni þurfti ég að staldra aðeins við og hugsa.

Ég hugsaði um það hvort Hornafjörður væri partur af Austurlandi ennþá, landfræðilega taldi ég svo vera. Málefnalega var ég ekki viss, og í því er vafinn fólginn. Átti ég að senda bæjarstjóra Hornafjarðar bréfið líka? Átti ég kannski að setja hann í "cc mail" eða átti ég að sleppa honum alveg. Um þetta er ég ekki ennþá viss. Ef einhver getur hjálpað mér, þá er það vel þegið.


Hversu mörg störf skapar netþjónabú?

Getur einhver upplýst mig? Þessa dagana er verið að stilla upp netþjónabúum sem valkosti í iðnaðarflóru landsins. Lykitölur um orkuþörf hafa verið nefndar. En hversu mörg afleidd störf eru af netþjónabúi? Þessu hefur enginn fjölmiðill svarað. Netþjónabú poppar upp í mínum huga sem stór salur af stórum tölvum sem geyma gögn, ég sé fyrir mér 5-10 rafvirkja, 2-3 ræstitækna og húsvörð og forstöðumann þjóna einu netþjónabúi sem starfsmenn, eftir að um 500 Pólverjar hafa byggt það upp undir leiðsög íslensks verkstjóra. Leiðréttið mig ef rangt er.

Er þá ekki mikilvægt að ef finna skal orkufrekan og umhverfisvænni iðnað annan en álver, skuli valin iðnaður sem veitir sem flest afleidd störf? Er ekki mikilvægast að iðnaður sem nýtir takmarkaða orku landsins skapi sem allra flest störf?

Var að velta þessu fyrir mér.


Veðurspáin

Það er ekki margir sem blogga um veðurspána og hneykslast á henni, eins og hún er mikilvæg fyrir okkur. Það eru allir sammála veðurspánni, þangað til annað kemur í ljós - að sjálfsögðu.

 Mættu fleiri taka að sér að þykjast vera sérfræðingar um veðrið. Það eru til sérfróðir bloggarar um pólítík, viðskipti, íþróttir og allar fréttir hér  - nema veðurfréttir. Ekki er þetta vegna þess að veðrið er svo gott :)


mbl.is Hæg breytilega átt víðast hvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfuðborgarvæðingin

Nú ætlar sjálfur heilbrigðisráðherra að heiðra Austfirðinga með nærveru sinni á morgun. Eftir að Austfirðingar hafa óskað eftir samtölum og fundum með heilbrigðisráðherra mánuð eftir mánuð er loksins komið að því.

Loforð um sjúkrahúsbyggingar og bætta þjónustu í þessum fjórðungi hafa ekki verið efnd, þvert á móti liggur fyrir niðurskurður hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, samkvæmt ákvörðun ráðherra. Þegar fólksfjölgun hefur aldrei verið meiri í fjórðungnum, er köttað niður. Þetta er athyglisvert. Hvernig dettur stjórnvöldum í hug að skella inn í okkar samfélag þvílíku skrímsli eins og álverið er án þess að bæta þjónustu? Þetta er óskiljanlegt. Auknum skatttekjum á svæðinu ættu að fylgja aukin útgjöld. ENN NEI segir ráðherra - þið skuluð leita til höfuðborgarinnar í sem flestum málum. Þetta er höfuðborgarvæðingin sem staðið hefur yfir í 50 ár og ekkert lát virðist vera þar á.

Ég er þeirrar skoðunar að taka eigi eins og 25% af fjármunum ætluðum til uppbyggingar á spítölum í Reykjavík og nýta þá til uppbyggingar á heilbrigðisþjónust á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi - frekar en að draga úr þjónustu þar og gera svæðin óbyggilegri heldur en áður.

Ég fer fram á að Guðni Ágústsson leyfi Gulla að smakka Framsóknargrautinn áður en hann flýgur af stað austur. Ef það verður þá fært.


...og hvað svo?

Datt í hug að skúbba hér næsta leiðara Austurgluggans:

 

Og hvað svo?Kárahnjúkavirkjun var formlega gangsett í síðustu viku. Eftir nokkurra ára stórvirkar framkvæmdir er þessari stærstu mannvirkjagerð Íslandssögunnar lokið. Á sama tíma er framkvæmdum við álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði að ljúka.Áhugaverðir tímar eru framundan á Mið-Austurlandi, erlent vinnuafl sem hefur verið drifkraftur framkvæmdanna yfirgefur nú fjórðunginn og útsvarstekjur stóru sveitarfélagana munu dragast stórlega saman á næsta ári. Þetta veldur meðal annars höfuðverk bæjarfulltrúana, sem eru í óða önn þessa dagana ganga frá fjárhagsáætlun ársins 2008.Því eru að mörgu leyti breyttir áður óséðir tímar framundan hjá íbúum þess svæðis sem framkvæmdirnar hafa mesta áhrif á. Velsældin sem fylgt hefur framkvæmdunum verður ekki lengur fyrir hendi. Samfélagið á eftir að laga sig að þeim breytingum sem hafa orðið og huga að innviðum samfélagsins, þannig að það verði sjálfbært. Nú þurfa fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklingar að taka höndum saman og móta stefnu framtíðarinnar. Í hverju felst framtíðin fyrir Austurland? Einn gesta á formlegri gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar spurði réttilega: “...og hvað svo?” Þetta er réttmæt spurning á svo mikilvægum tímapunkti.Ljóst er að grunnatvinnugreinar fjórðungsins til langs tíma eru ekki jafn styrkar og áður, það er að segja sjávarútvegur og landbúnaður. Sjávarútvegurinn er í vörn um allt land og styrkur hans mælist í sveiflukenndum aflatölum og gengi krónunnar sem er líka sveiflukennt. Því er nýsköpun og uppbygging í sjávarútvegi alls ekki svo sjálfsagt mál. Öðru máli gegnir hins vegar um landbúnað, og þjónustugreinar hans. Afurðastöðvar fyrir landbúnað eru aðeins tvær í fjórðungnum, mjólkurstöð á Egilsstöðum og sláturhús á Vopnafirði. Þessi staða getur vart verið happadrjúg fyrir landbúnaðinn, og því verða aðilar atvinnulífsins að móta framtíðarstefnu sem miðar að uppbyggingu afurðastöðva fyrir landbúnaðinn. Staða landbúnaðar hér er þessi: Lítil framleiðsla á nautakjöti, lítil sem engin framleiðsla á svínakjöti, ekkert kjúklingabú, sáralítil grænmetisrækt og mjólkurframleiðsla í varnarstöðu. Þetta er ekki falleg mynd, en sönn. Á sama tíma eru jarðir keyptar af bændum og notaðar sem sumarafdrep frekar en atvinnutæki. Hver atvinnutæki sem tekið er úr umferð, hlýtur að vera missir fyrir samfélagið.Aðilar landbúnaðarins gætu mótað framtíðarstefnu og fylgt henni eftir með því að láta verkin tala. Til að mynda eru ágætis möguleikar í grænmetisrækt í gróðurhúsum, en ódýr orka ætti að bjóðast til ræktenda hér á Austurlandi ef farið yrði í þá vinnu. Sunnlendingar hafa reynslu af grænmetisrækt, og má nefna Flúðamenn sem fóru út í stóra og mikla grænmetisrækt. Í kringum starfsemina á Flúðum hefur byggst upp áhugavert samfélag grænmetisræktenda í bland við öfluga ferðaþjónustu, sauðfjárrækt og hrossarækt. Það ætti að vera austfirskum aðilum landbúnaðarins keppikefli að efla hann á næstu árum, og gera hann að áhugaverðri atvinnugrein í fjórðungnum. Fyrirmyndirnar eru til staðar – frjósemi hugans, hugsjónamennska og jákvæða hugsun þarf þó einnig til.

 


Trekk í gegnum yellow og allt í skegg

Ég man vel eftir ávísanaheftum. Ég fékk fyrsta ávísanheftið mitt þegar ég var sautján ára. Í þau voru 20 blöð, ef ég man rétt - og skrifaði ég stoltur mína fyrstu ávísun í Shellskálanum á Egilsstöðum þegar ég fyllti Lödu Lux bifreið mína af bensíni. Ég skrifaði ávísun upp á 2.000 krónur og átti afgang. Þá var ódýrara að fyll´ann.

Við vorum misábyrgir með ávísanaheftin, við menntaskólatossarnir. Stundum gat komið sér vel að geta skrifað gúmmítékka á barnum í Hótel Valaskjálf um helgar. Það var talsverður höfuðverkur á stundum að greiða gúmmíviðskiptin. Í eitthvert skiptið fórum við tveir saman félagarnir á mánudegi og hittum hótelstjórann í Valaskjálf, sem aumkvaði sig yfir okkur og geymdi ávísanir okkar í einn og hálfan mánuð. Gegn því að við létum ekki sjá okkur þar í millitíðinni. Það var fínn díll.

Þegar að maður skrifaði gúmmítékka og hann var innleystur, þá fékk maður gulan miða sendan heim í pósti, guli liturinn sást vel í gegnum gluggann á umslaginu. Gulan miða þekkti maður úr góðri fjarlægð. Magnús Ármann skólafélagi minn hafði góða reynslu af þessu vandamáli. Eitt skipti er við stóðum við pool borðið í Menntaskólanum á Egilsstöðum spurði ég sem sannur vinur hvernig lífið væri að leika við hann. Hann svaraði: "Æj, það er trekk í gegnum yellow og allt í skegg." Við hlógum mikið að þessum fleygu orðum, en enginn annar viðstaddur fattaði brandarann. Við sem þekktum gula miða úr fjarlægð höfum notað þennan frasa æ síðan yfir blankheit.

Ef til vill er þessi staða uppi hjá auðjöfrum landsins um þessar mundir....


Minna eða meira.....

Svona hljómar fyrirsögn RúV útvarpsfréttastofu í frétt um fasteignamarkaðinn: "Minni velta á fasteignamarkaði."

Frábær fyrirsögn, eða þannig. Þegar fréttin er könnuð nánar þá kemur í ljós að velta á fasteignamarkaði er 85% meiri en á sama tíma í fyrra. Velta á fasteignamarkaði er árstíðabundin og því hækkar og lækkar veltan milli mánaða og tímabila. Þess vegna væri alveg eins hægt að segja "Næstum tvöföldun á veltu á fasteignamarkaðnum"

Þar sem að gaman er að mála skrattann á vegginn, velur fréttastofa útvarps að hagræða sannleikanum eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Ben Þorsteinsson
Einar Ben Þorsteinsson
talar frá Egilsstöðum

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 77
  • Frá upphafi: 8430

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband