Færsluflokkur: Bloggar

Andi Alfreðs Þorsteinssonar svífur yfir vötnum - sem engill

Menn “frjálshyggjunnar” sem gagnrýndu þáttöku Orkuveitunnar í Línu.net og rækjueldi stýra nú útrás íslenska raforkuiðnarins á kostnað skattborgarana. Upphaflegi tilgangurinn um rafmagn fyrir alla á skynsömu verði er löngu gleymdur og grafinn í skjóli vonar um gróða í Afríku og Kína.

Í síðustu viku stóð einn framkvæmdastjórinn með Ólafi Ragnari Grímssyni uppi á sviði, einhvers staðar í Ameríku, og fékk að taka í hendina á Bill Clinton gegn því að lofa milljörðum króna í orkuverkefni í Afríku. Já það er auðvelt að nota fé annarra í áhættufjárfestingar. Þangað til annað kemur í ljós er þetta stærsti árangurinn hingað til í útrás orkufyrirtækjanna – að hrista hendi Bill Clintons. Ég bið ykkur, strákar, komið þessum útrásarfyrirtækjum í einkaeigu hið fyrsta. Skattborgarar vilja frekar sjá lækkun rafmagns- og upphitunarkostnaðar heldur en gróðavonir eftir tugi ára í Afríku og Kína.

Já....einmitt, menn einkaframtaksins stunda einkaframtak fyrir opinbert fé!


Aumingja Egill Helgason

Ætli ég haldi ekki aðeins áfram með RÚV-ið 

Það svokallaða átak í innlendri dagskrárgerð sem boðað var með tilkomu nýs útvarpsstjóra er hvergi sjáanlegt. Leikið sjónvarpsefni, utan Spaugstofuna, er hvergi að finna á dagskrá Ríkissjónvarpsins.

Nýting á fjármagni virðist engin vera á stofnuninni og aukið fjármagn til þáttagerðar virðist vera ausið í þætti sem þegar voru til – og hafa lítið batnað við aukið fjármagn. Aumingja Egill Helgason situr nú á miklu hærri launum en nokkru sinni fyrr og stýrir vönduðum bókmenntaþætti, sem hefði allt eins getað verið í útvarpinu á Rás 1 fyrir þau 4% þjóðarinnar sem hefur áhuga á vönduðum viðtölum við bókmenntagagnrýnendur og rithöfunda.

Verst er að Spaugstofan skulu vera fyrir augum landsmanna

Mál Spaugstofunnar komust í þjóðmálaumræðuna fyrir mörgum dægrum síðan þegar Randveri Þorlákssyni var tjáð að nærveru hans væri ekki lengur óskað á flatskríni landsmanna. Þetta var hið versta mál, nú ganga meira að segja undirskriftalistar þar sem farið er fram á að Randver verði áfram í þættinum. Að sjálfsögðu er þetta hið versta mál.

 Það er þó verra mál að Spaugstofan skuli vera fyrir augum landsmanna áfram, hún skánar ekki þó mönnunum fækki. Líklegast hefði verið farsælast að leggja hana niður með öllu og kalla til nýja og ferskari grínara – sem hægt er að kalla grínara. Líklegast hefðu fáir kvartað þó Spaugstofan yrði tekin af dagskrá eftir 20 ára veru á skjánum. Svo er þátturinn réttlættur með áhorfstölum. Áhorfstölur á Ríkissjónvarpið á þessum tíma eru alltaf svakalegar, og yrðu jafnmiklar þótt öðrum grínlistamönnum yrði gefið tækifæri.

RÚV - Keppst við næsta auglýsingahlé

Útsvar, spurningakeppni sveitarfélaganna er annar þáttur á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Þar keppa íbúar valinna sveitarfélaga í gáfum. Því miður missti sjónvarpið af því tækifæri að gera þáttinn skemmtilegan og velheppnaðan. Möguleikar á því að sveitarfélögin kynntu sig eða útveguðu eins og eitt skemmtiatriði eru ekki einu sinni nýttir. Nei, þarna standa stjórnendur á ofurlaunum í illa heppnaðri sviðsmynd og keppast við að spyrja spurninga fyrir næsta auglýsingahlé. Ekkert bendir til þess að þátturinn sé í Ríkissjónvarpinu nema merkið upp í hægra horninu. SkjárEinn hefði gert betur.

Kastljósið - velheppnuð andlit

Kastljós er skilgreindur sem fréttaþáttur, eða mannlífsþáttur. Þar vinnur fjöldinn allur af fyrrverandi fréttamönnum og kvenfólki með velheppnuð andlit. Þar eru allir með hærri laun en gengur og gerist í fjölmiðlageiranum. Þegar starfsmenn þáttarins voru einungis þrír, og sviðsmyndin voru þrír bólstraðir stólar, þá var áhorfið á Kastljósið meira. Allir peningar RÚV virðast ekki færa þættinum meira áhorf en þrír bólstraðir stólar gerðu áður.

Ert þú "elítubloggari" eða kannski "hopeless-bloggari" ?

Að vera penni á Íslandi á dag hlýtur að vera skemmtilegt. Nú skrifa flestir bestu pennarnir á bloggið og auðvelt að fylgjast með því hvað þeir segja.

 Nú hafa orðið til nokkrir flokkar penna/bloggara, og virðist komin upp hálfgerður elítuflokkur bloggara/penna. Það er sennilega hámarksárangur í bloggi. Hér er hugmynd að greiningu á bloggheimum.

1. Elítubloggarar - þeir sem hlotið hafa náð fyrir elítunni og fá mörg þúsund flettingar á dag. Það sem þeir segja vekur athygli. Þeir eru fastir í blogginu - mega ekki hætta, þá detta þeir úr elítunni. Eiga marga bloggvini úr elítunni. Ráðherrarnir fylgjast með því sem þeir skrifa.

2. Wanna be bloggarar - þeir sem eru að vinna að því að komast í elítuna. Keppast við að vera sem allra mest ögrandi og sniðugir. Þeir sem gefast ekki upp, komast í elítuna fyrir rest. Biðja oft "elítubloggara" að vera bloggvinir sínir til að líta betur út.

3. Áhugabloggarar - þeir sem blogga af því þeim finnst það gaman, og hafa áhuga á að tjá sig. Eiga fáa bloggvini, samt einhverja "fjölskyldubloggarar"

4. Fjölskyldubloggarar - þeir sem blogga fyrir fjölskyldu og vini. Blogga í dagbókarformi (upphaf bloggsins)

5. Hopeless bloggarar´- þeir sem blogga bara í nokkra daga - í lotum oftast tvisvar til þrisvar á ári. Eiga oftast nokkra "elítubloggara" að bloggvinum. Dreymir um að verða "elítubloggarar" einn daginn.

 

(Ég er líklegast "hopeless bloggari")


Afturhaldskommatittir

 Vatnsréttindin vegna Kárahnjúkavirkjunar voru metin á 1,6 milljarða í úrskurði matsnefndar á dögunum. Ríkið er skráð fyrir mestum hluta þeirra réttinda eða um 60%, miðað við nýlegan úrskurð Óbyggðanefndar. Ríkið mun líklegast ekki ganga á eftir greiðslu vegna vatnsréttindana og því þarf Landsvirkjun að greiða rúmar 600 milljónir fyrir vatnsréttindin.Stór hluti bóta vegna vatnsréttinda er einnig í uppnámi vegna kröfu fjármálaráðherra í stærstan hluta lands jarðanna Brúar og Valþjófsstaðar sem eiga tilkall til rúms þriðjungs þessara bóta.Landsvirkjun gerði eignarnám á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar og leitaði samninga eftir þann gjörning. Matsnefndin var kvödd til og úrskurðaði hún samkvæmt óskum Landsvirkjunar. Nú eru vatnsréttindin eign Landsvirkjunar og bændur telja flestir hverjir að verðið sé ekki rétt metið og hafa þeir langflestir lýst því yfir að þeir skjóti úrskurði matsnefndarinnar til dómstóla. Það virtist ekkert tiltökumál að búið væri að heimila byggingu stærstu virkjunar Íslandssögunnar þótt ekkert lægi fyrir um heimild til að nýta eina hráefnið til raforkuvinnslunnar, vatnsaflið.Úrskurður matsnefndarinnar gengur meðal annars út á hagkvæmni virkjunarinnar á 63 árum, samkvæmt arðsemismati Landsvirkjunar sem matsnefndin leggur til grundvallar gagnrýnilaust. Landsvirkjun og matsnefndin gera sem sagt ráð fyrir því að virkjunin verði ónothæf eftir 63 ár og greiða bætur fyrir vatnsréttindin út frá þeim forsendum. En hvað gerist eftir 63 ár ef virkjunin er ónothæf? Samkvæmt dómnum þá á Landsvirkjun vatnsréttindin áfram, þótt þeir hafi ekki greitt fyrir það. En hvað gerist ef virkjunin er nothæf áfram? Samkvæmt dómnum þá á Landsvirkjunin vatnsréttindin áfram og getur nýtt þau til raforkusölu með hreinum hagnaði eftir að hafa greitt upp stofnkostnað Kárahnjúkavirkjunar. Öll heilbrigð skynsemi ætti að leiða að því rök að ef Landsvirkjun greiðir aðeins fyrir nýtingu vatnréttindana í 63 ár, þá skili þeir eigninni eftir þann tíma. Eftir 63 ár verða vatnsréttindin margfalt meira virði en þau eru í dag þar sem stofnkostnaður verður að fullu uppgreiddur. Þá vill matsnefndin og Landsvirkjun meina samkvæmt þessu að þau séu einskis virði. Til samanburðar við vinnubrögð Landsvirkjunar, má benda á samning Íslenskrar orkuvirkjunar við vatnsréttindahafann Seyðisfjörð. Sá samningur kveður á um leigu á vatnsréttindum til 50 ára og samkvæmt nýlegri grein bæjarstjórans í Austurglugganum eru tekjur af leigu áætlaðar 800 milljónir og það vegna virkjunar sem er 70 sinnum minni en Kárahnjúkavirkjun.Þetta gerir dóm matsnefndarinnar órökrænan og ótrúverðugan. Sanngirni og rökvísi eru ekki höfð að leiðarljósi heldur eru það einhverjar aðrar hvatir sem liggja þarna að baki. Þetta er eignaupptaka af versta tagi.Grunnhugtök um verndun eignaréttarins eru að engu höfð í viðskiptum ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar við eigendur vatnsréttinda. Aðilar sem ættu að virða eignaréttinn hvað mest, vaða yfir eignaréttinn á skítugum skónum í skjóli ríkisvaldsins.Ríkisstjórn Íslands með forystu Sjálfstæðisflokksins gerir ríkisfyrirtækinu Landsvirkjun kleift að taka upp eignir almennings án réttmæts endurgjalds. Ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að afturkalla eignarnám á vatnréttindum vegna Kárahnjúka og leigja þau samkvæmt áætluðum líftíma virkjunarinnar og skila þeim að leigutímanum loknum.Miðað við hugmyndir margra “frjálshyggjumanna” gæti Landsvirkjun allt eins verið seld innan nokkurra ára til einkaaðila sem munu eignast réttindin og hagnast á eignaupptöku ríkisins í skjóli “frjálshyggjunar”.Eignaupptaka í skjóli Sjálfstæðisflokksins í gegnum Óbyggðanefnd og Landsvirkjun er ekki frjálshyggja heldur kommúnismi af versta tagi. Kapítalískt samfélag myndi vernda eignaréttinn en ekki troða hann skítugum skónum. Þetta gerir liðsmenn þessara afla að verstu “afturhaldskommatittum” eins og fyrrverandi foringi þeirra myndi sjálfsagt orða það.  

B.INGI mátti fara fram - Geir með eftirsjá í augum

Jámm Valgerður vill verða varaformaður og ég styð það, enda er kella úr mínu kjördæmi - höfuðvígi framsóknarflokkksins. Sé engan annan tilvalin til starfans, nema þá ef B.INGI hefði verið fyrri til að gefa kost á sér. Það hefði í raun verið KÚL mín vegna. Hefði undirbúið framtíðarfarveg flokksins aðeins og gefið skemmtilegri ímynd á flokkinn. Tími B.INGA kemur samt bráðum.

Svo var ég að pæla. Horfði nefnilega upp á það þegar Geir Hilmar Haarde og Ingibjörg Sólrún mættu í viðtal saman. Það var nefnilega fyndið að heyra hvað kerlingin talaði miklu meira en Geir, og mér fannst jafnvel sem Geir væri farin að gjóa augunum til hennar, og það var eins og augnaráðið væri að segja: "Sjitt, af hverju fór ég með henni í stjórn?"

Svo átt ég eggjaköku í kvöldmat.


Pólskir vinnumenn og snjókoma fyrir austan

Jæja þá fer að nálgast sumarið - ég horfi hér út um gluggann í blokkinni minni á Egilsstöðum og sé varla út því það snjóar svo mikið. Ekki beint uppörvandi að hugsa til þess að í fyrramálið þarf ég að byrja á því að strjúka snjóinn af rúðunni á bílnum mínum.

En jú það er fínt að vera minntur á að norðurhvel jarðar er nálægt mér.

Á morgun ætla ég semsagt að vakna, strjúka snjóinn af bílrúðunni og kveikja mér í sígarettu. Svo ætla ég að hella mér upp á þónokkuð sterkt kaffi í vinnunni, og reykja svo aftur áður en ég geri eitthvað af viti.

Á vinnustaðnum mínum eru margir pólverjar og eins margir frá öðrum þjóðlöndum. Þeir eru alltaf byrjaðir að vinna á undan mér. Þeir eru líka enn að vinna þegar ég hætti að vinna. Ég veit í rauninni hvorki hvenær þeir byrja á morgnana né hvenær þeir hætta. Skrítið.

Þeir eru fínir vinnumenn fyrir íslensk kapítalísk fyrirtæki. Enginn fjölskylda eða einkalíf að þvælast fyrir þeim. Enginn börn sem verða veik heima. Engin kona sem vill fara að versla á laugardögum. Ekkert áhugamál sem gerir það að verkum að stundum þarf að hætta fyrr. Engin GSM sími sem hringir, það er svo dýrt að hringja milli landa. Enginn bíll sem þarf að fara með á verkstæði. Ekkert! Óskabörn Þjóðarinnar! Notum þetta!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Ben Þorsteinsson
Einar Ben Þorsteinsson
talar frá Egilsstöðum

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 9759

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband