Færsluflokkur: Bloggar

Ég er góður kúnni

Það eru mis merkilegir hlutir sem á daga manns drífa. Í morgun fór ég tildæmis í klippingu. Það er létt verk og löðurmannlegt að klippa mig. Há kollvikin flýta fyrir. Það tekur yfirleitt 6-8 mínútur að skerða hár mitt. Þess vegna gefur auga leið að ég er góður kúnni, tek lítinn tíma, þegi mikið og brosi alltaf þegar mér er sýndur rakaður hnakkinn í baksýnisspeglinum þegar klippingu er lokið. Einnig fer mjög lítið gel í stutt hárið, þannig að það sparar pening. Ég vill alltaf láta gela mig þegar ég er klipptur.

Fyrir þetta borga ég krónur 3.200 krónur. Miðað við átta mínútna vinnu - hlýt ég að vera æskilegur kúnni á hvaða rakarastofu sem er.

Bara að pæla.

 Annars rifjast upp fyrir mér skemmtileg lítil saga um það þegar ég skellti mér í klippingu á hárgreiðslustofu á Akranesi fyrir nokkrum árum. Þá var ljóshærð fallega vaxin ung kona að klippa mig. Hún angaði af ferskri ávaxtalykt og fékk mig til að brosa. Þegar hún er langt komin með að klippa mig tekur hún eftir stóru öri á enninu á mér og spyr:

"Hvað kom eiginlega fyrir þig?"

og ég svara.

"Ég lenti í alvarlegu bílslysi þegar ég var 21 árs. Ég missti allar minningar mínar fyrir slysið og man ekkert eftir æsku minni, uppeldinu eða vinum. Líf mitt byrjaði í raun ekki fyrr en eftir slysið því ég man ekkert."

Þessu svaraði ég og þetta átti að vera fyndið. Allar fjórar samstarfskonur hennar dauðþögnuðu og hún líka. Vandræðaleg þögn var næstu fimm mínúturnar, eða þar til ég hafði yfirgefið staðinn. Þetta var svo vandræðalegt að ég þorði ekki að segja:

"Hey ég var að djóka."

Næst þegar hún sér mig hugsar hún sennilega; Þetta er gaurinn sem man ekki neitt úr æsku.


Ekki gott

Okei. Ég vona þá að Eiður Smári verði með í næsta leik! 3-0 fyrir dani í Parken dapur leikur. Ætli við verðum ekki að fara að spila fleiri æfingaleiki við Færeyinga.

Ekki taka hann af lífi strax

Já vonandi er ég ekki að fara að horfa á 14-2 tap í Parken. Að vísu munum við tapa en hversu stórt veit ég ekki. Það er mín spá. Kannski 4-1.

Það verður athyglisvert að vita hvernig mun ganga í leiknum án Eiðs Smára Guðjohnsen, en gengi landsliðsins var gott án hans gegn bæði Spánverjum og Norður-Írum fyrir stuttu síðan. Þáttaka hans í leikjum við Letta og Liechtenstein var hins vegar gagnslaus. Það er því rétt hjá mætum manni að staða hans í landsliðinu getur vakið spurningar ef Íslendingum gengur vel í leiknum á eftir.

Ég vona hins vegar að nýji þjálfarinn fái sex mánaða "pressufrið" frá fjölmiðlum. Það er hefð fyrir því annars staðar í Evrópu. Ítalski þjálfarinn var til að mynda ekki gagnrýndur fyrir slakt gengi í sínum fyrsta leik gegn Íslendingum á sínum tíma. Því má ekki taka Ólaf af lífi strax í fjölmiðlum, þess verður að gæta. Þetta skrifa ég vegna þess að strax í fyrsta leik var Eyjólfur Sverrisson gagnrýndur harkalega í beinni útsendingu á SÝN, en þar voru að verki Arnar Björnsson og Ólafur Kristjánsson. Eyjólfur sætti því strax gagnrýni, og það er ósanngjarnt - þó á seinni tímum hafi gagnrýnin verið réttmæt.

Meira eftir leik.


Kommi í auðvaldsveislu

oggi_joMér finnst allavega soldið fyndið að Ögmundur sjálfur hafi verið í brúðkaupi Jóns Ásgeirs og Ingibjargar. Það er eitthvað svo þverstæðukennt að þessi "kommi" Íslands skuli vera á gestalista auðvaldsins - og þiggja boðið. Örugglega ekkert athugavert við hann skuli hafa verið þarna, en samt skondið og þversagnakennt.

Ísland er vissulega ekki svo stórt - líklega sker.

By the way, þá er þessi mynd stolin af visir.is


Skrattinn málaður á vegginn

Það eru ekki traustvekjandi yfirlýsingar sem félagsmálaráðherra vor gefur frá sér um húsnæðismarkaðinn. Upphrópanir af þessu tagi geta varla verið góðar fyrir nokkurn aðila. Ég myndi skilja þessar yfirlýsingar ef manneskjan væri í stjórnarandstöðu.

Svo segir: "Jóhanna sagði, að framsóknarmenn hefðu séð um húsnæðiskerfið undanfarin 12 ár og skilið það eftir í algeru þroti."

Váá. Þetta eru yfirlýsingar! Á maður að trúa þessu?


Erfitt að meta klamidíu

Ég hef verið að velta fyrir mér talsvert í morgun hvað er fréttaefni og hvað er ekki fréttaefni. Ég er ekki ennþá búinn að ákveða hvort mér finnst hrikalegur klamidíufaraldur í Menntaskólanum á Egilsstöðum vera fréttaefni eða ekki.

Nonni og Manni farnir að kenna þýsku

Nú er maður víst búinn að ganga frá kaupum á flugmiða til Munchen. Það var eindreginn ósk betri helmingsins að við eyddum jólafríi okkar í bæjaralandi enda betri helmingurinn alþýsk. Hún er nú orðinn ískyggilega góð í íslensku og jafnvel farin að leiðrétta mig í tíma og ótíma, og farin að kunna forna íslenska málshætti.

Heldur þykir henni þó lítið fara fyrir þýskukunnáttu minni, þó ég hafi skorað ágætlega í þýsku á framhaldsskólaárunum. Hún hefur tekið til þess ráðs að flytja inn Nonna og Manna myndirnar með þýsku tali - og segir það nauðsynlegt fyrir mig að horfa á þessar myndir til að læra þýskt tungumál betur. Nú erum við komin á þátt fjögur af sex, og verð ég að viðurkenna að ég er síst betri í þýsku. Þótt mér sé farið að skiljast að Magnús Hanson drap Sigurð og að hann er vondur kall.

Hún hefur tilkynnt mér það, af þýskum aga, að næsta kennslustund verði næsta laugardag og að þá munum við horfa á þætti fimm og sex. Ég veit nú ekki hvort hún mun halda stöðupróf í framhaldinu, en mig grunar að ég myndi falla á þess konar prófi.

Ég og æskuvinur minn horfðum á íslensku útgáfuna af þáttunum í "gamla daga" og hermdum við eina setningu sérstaklega úr þáttunum. Hana mælti fyllibyttan Sverrir á afar nefmæltan og skondin hátt. En hún hljóðaði svo "Maagnúúús Haaanson draap Siggurð."

Meira af þýskum málefnum síðar.


Sponsar Björgólfur þetta?

Þetta er orðið gott hjá grínverktökunum á Spaugstofunni! Þessum afgömlu gaurum er guðvelkomið að fara að gera eitthvað annað, gætu farið að leysa þá leikara af sem leika gamalmenni í Þjóðleikhúsinu.

Ef að Spaugstofan væri gefin út á DVD fyrir jólin, hvað ætli myndu seljast margir diskar? Kannski 1000? GEISP. Ætli Björgúlfur sé að sponsa þessa hörmung? Þeir eru nú verktakar!


Ríkisgersemin -

Við erum skondin hér á þessari krapaeyju.

Við erum með iðnaðarráðherra sem ferðast til fjarlægra landa til að halda kokkteilboð með íslenskum viðskiptamönnum í orkuútrás. Helsta hugðarefni er hans að hugvit sem bundið er við heilabú einstaklinga sem starfa hjá Orkuveitur Reykjavíkurbúa og Landsvirkjum ríkisþegna verði að einskonar Ríkisgersemi. Það er engu til sparað að boða boðskap hins nýja guðs - jarðvarmaguðs, og nú skilst mér að þessa nýju þjóðtrú eigi að boða innan Evrópusambandsins. Hugvit sem bundið er í HEILUM örfárra manna - á að verða ríkisgersemi. Þetta er fyndið.

Meðan íslenska þjóðin framleiðir ekki nægar vörur til að standa undir eigin innflutningi, gengur nýr jarðvarma-jesú berfættur á úthöfum Asíu og Afríku og boðar nýja trú sem ríkisstjórnin virðist hafa tekið. Tölur um viðskiptahallan eru svo ógnvekjandi að engir þorir lengur að minnast á hann. Þegar að svarið ætti að vera meiri framleiðsla þá fara Össur og Geir til Ítalíu að leika við stóru strákana. Þar fá þeir líka að hitta Geysir Green í kokteilboðum! Lesið bara heimasíðu Össurs.

Þegar að reykspúandi verksmiðja Alcoa verður komin í fulla framleiðslu eftir nokkra mánuði hafa vöruflutningar frá Íslandi aukist um 20% með einni verksmiðju, og það er langt frá því að stoppa upp í viðskiptahallann. Þarf þá ekki að auka framleiðslu meira? NEI! er svar jarðvarma-jesú, framleiðum rafmagn í Eþíópíu og skildum löndum segir hann! "Við erum að tala um fjárfestingar fyrir 2000 milljarða" sagði hann um daginn og fékk ósjálfráða fullnægingu án þess að skammast fyrir framan sjónvarpsmann ársins - sem by the way góndi á hann án gagnrýni og virtist einfaldlega fá það með honum. Þetta er fyndið.

Ef að ráðherrann, hann jarðvarma-jesú, gæfi einn þriðja af þeirri orku sem hann gefur í trúboð í fjarlægum löndum í að efla íslenskan iðnað og fjárfestingar í honum þá væri hann að gera þjóðinni til góðs. Meðan hann gengur erinda Geysis Green og íbúa fjarlægra landa, þá er hann ekki iðnaðarráðherrann minn - heldur jarðvarma-jesú sem boðar framandi trú. Ég er ekki alveg að fá það með honum í þessum málum. Þetta er fyndið.

Svo ætlar að hann að treysta því að hin stórfenglega útrás sem hugmyndafræðilega byggir á þekkingu sem nokkrir íslenskir skólastrákar geyma í kollinum, sé heila málið. Shit! Ætlar hann að taka veð í heilabúum íslenskra vísindamanna?Hvernig verður þetta? Leyfum Sir Smárason, Mr. Bónus og öðrum eigendum smáþotna að taka þennan séns á eigin ábyrgð, leyfum þeim líka að ráða þessa vísindamenn okkar í vinnu - þá getum við snúið okkur að því að byggja upp okkar eigið land!! Hvernig í fjáranum getur það orðið hlutverk ríkis og bæja að byggja orkuverksmiðjur í Asíu og Afríku, ég er bara ekki að fatta þetta! Þetta er fyndið.

Það væri hægt að gera út nýjan sendiherra, bara einhvern kút úr Samfylkingunni eða Sjálfstæðiflokknum sem á bindi og hvíta skyrtu. Það væri hægt að kalla hann "the Icelandic minester of power". Sir Smarason gæti borgað kaupið hans og Geir Hilmar gæti skrifað undir ráðherrabréf fyrir hann. Svo gætu þeir ferðast saman í þotunni hans Hannesar - og svo gæti Sir Smarason sagt á mikilvægum augnablikum "this is the Icelandic minister of power, he likes steam power". Þá gæti hinn raunverulegi iðnaðarráðherra verið heima á Íslandi og unnið að þeim málum sem hann á að vinna að - og gæti tildæmis haft tíma til að heimsækja fjarlægar þjóðir eins og Vestfirðinga, Austfirðinga  og Norðlendinga.

Bara að pæla.

 


Krullaður ríkisráðgjafi!

Það fór aldrei svo að ríkið gæti ekki stutt Friðriki Þór með kaupum á sýningarrétt.

Hefði ekki verið einfaldara að gera hann að sérstökum launuðum ríkislistamanni?? Heldur en sérlegum ráðgjafa íslenska ríkisins í kvikmyndamálum!

"Friðrik Þór Friðriksson verður sérstakur ráðgjafi íslenskra stjórnvalda í kvikmyndamálum og hann mun á fyrstu fimm árum gildistíma samningsins kynna íslenska kvikmyndalist og heimsækja tiltekinn fjölda grunn- og framhaldsskóla skv. nánara samkomulagi við yfirvöld fræðslumála.
Skólar eru hvattir til að nýta sér kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar, t.d. við kennslu í íslenskum bókmenntum og kvikmyndafræðum."

http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Dreifibref/nr/4294


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Ben Þorsteinsson
Einar Ben Þorsteinsson
talar frá Egilsstöðum

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 9757

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband