Færsluflokkur: Bloggar

Rembst við rjúpu!

"Ég var að koma af rjúpu, einni rjúpu!"

Þetta sagði austfirskur veiðimaður fyrir stuttu. Rjúpnastofninn hefur sennilega aldrei verið í lélegra standi síðustu áratugi, þrátt fyrir að dregið hafi verið mikið úr veiði með sérstökum aðgerðum umhverfisráðherra. Eitt árið varð úlfaþytur á alþingi, þegar sumir alþingismenn sáu fram á að jólasteikin gæti orðið annað en rjúpa.

Verðum við ekki að hætt að veiða rjúpu í bili, þótt aðrar breytur eins og minkur, refur, fálki, veðurfar og sveiflur í stofinum hafi áhrif?

Er rómantískt að borða eina af síðustu rjúpunum??


Hroki, forvitni, klígja og vorkunnsemi

Ég "lenti" í því að sjá hámenningarlegan þáttinn "Allt í drasli" á Skjá Einum fyrir stuttu síðan. "Gestgjafi" þáttarins var tveggja barna einstæð móðir í Kópavoginum, og var hún að þessu sinni fengin til að bera drasl sitt á torg sjónvarpsáhorfenda.

Þessi þáttur vekur upp með mér fjórar kenndir sem eru hroki, forvitni, klígja og vorkunnsemi - sem er svolítið skrítin samsetning.

Hroki gagnvart þeim óþrifnaði sem gestgjafar þáttarins virðast geta búið við.

Forvitni um hvernig persónur það eru sem "lifa" svona.

Klígja gagnvart viðbjóðinum sem fyrirfinnst í íbúðum gestagjafanna.

Vorkunnsemi gagnvart gestgjöfunum sem líklegast eiga við andlegt vandamál að stríða fremur en óstjórnlega áráttu fyrir subbuskap.

Út á þessar kenndir mínar, og erfiða stöðu gestagjafana gera svo þáttaframleiðendur Skjás Eins út á - og meika peninga af öllu saman.

Löglegt - alveg pottþétt.

Siðlaust - æji ég held það barasta.


Landbyggðarvæll dagsins

Það erfitt að sjá út hvernig sú ákvörðun að fella niður flutningsjöfnun á eldsneyti til landsbyggðarinnar varð til. Hver ætli hafi átt hugmyndina? Og hver ætli hafi klappað hverjum á bakið og sagt hana snilldarlega?

Á sama tíma og Vestfirðir fá 150 milljónir í sérstaka flutningsjöfnun, þá fá Austfirðingar ekki eina krónu til þess arna. Þegar flutningsjöfnun á eldsneyti er aflögð, þá hækkar eldsneyti í verð - og þar af leiðandi flutningskostnaður. Vart þarf að taka fram að flutningskostnaður er stór hluti vöruverðs á Austurlandi, enda vegalengdirnar mestar.

Sumir myndu kalla þetta aðhald á ríkisbuddunni. En ég ætla að kalla þetta fáránleg vinnubrögð!

Ég fer að gráta bráðum.


Leiðinleg ferðasaga.....

Ferðasögur eru lesefni sem hefur aldrei höfðað til mín neitt sérstaklega. Ég verð þó hins vegar að mæla nokkur orð um ferðalag sem ég tók þátt í til Vestmannaeyja á laugardaginn.

Ég tók að mér að fara með unglingaflokk Hattar til Vestmannaeyja til keppni í handknattleik. Lagt var af stað kl. 6:30. Reyndar eftir hálftímaleit að markverði okkar, sem svo fannst aldrei!! Og hefur ekki spurst til enn. Við keyrðum sem lá leið suðurströndina í erfiðum púðursnjó fyrstu 250 kílómetrana, svo tók við erfitt krapaslapp næstu 200 kílómetrana. Við tókum svo flug frá Bakka kl. 15 og spiluðum í Eyjum kl. 16. Strákarnir mínir voru talsvert sljóir í fyrri hálfleik eftir að hafa setið í bíl allan daginn, og töpuðum við 33-23 ef ég man rétt. Svo gáfum við okkur um 5 mínútur til að fara í sturtu áður en við brunuðum á flugvöllinn. Við lögðum af stað keyrandi aftur til Egilsstaða kl. 18.35 frá Bakka. Kl. 19.31 komum við á Vík, en grillinu hafði lokaði kl. 19.30 og það var auðvitað enginn séns að fá afgreiðslu þar. Því urðu drengirnir mínir að gera sér útrunnar samlokur sér að góðu. Svo var haldið heim á leið í brjálaðri hálku og komum við heim til Egilsstaða kl. 02:30. Þá reiknaðist mér til að við hefðum verið um 20 klst. á ferðalagi.

 Helstu niðurstöður ferðarinnar:

1. Það eru ekki góð bílstjórasæti í Renault rútukálfum, orskaka bakverk, hálsverk og hausverk.

2. Flugfélag Vestmannaeyja er magnað fyrirtæki, sem flýgur þegar þér hentar.

3. Íslensk veðrátta og vegir eru stórhættuleg fyrirbæri.

4. Grillið á Vík í Mýrdal er með einni mínútu of skamman opnunartíma.

5. Olían á Kirkjubæjarklaustri er dýrari en á Egilsstöðum.

6. Kaffið í Olís á Hornafirði kostar 100 kr. en kostar ekkert í Olís Egilsstöðum, og ekkert í Olís Reyðarfirði.

7. Bland í poka, Magic, grænn opal, Coca Cola og Freyju Draumur - er allt óhollt drasl  - en nauðsynlegt til þess að halda þreyttum bílstjórum vakandi.

8. Öxi er erfiðasti fjallvegur landsins, sem er ein akrein og mjög þröngur. Ef þú missir Renaut rútukálfa þar þvert á veginn í hálku, þá nærðu að fella vegstikur báðum megin - þetta var sannreynt.

9. Norðurljósin sjást um allt land.

10. Egilsstaðir eru fallegri við heimkomu, en við brottför.


KB banki, sparkar í neytendur - liggjandi

Sú ákvörðun Kaupþings að þau "íbúðalán" sem bankinn hefur lánað síðustu ár séu óyfirtakanleg nema með hækkun vaxta er ógeðfelld. ÓGEÐSLEG. Bankinn sparkar í viðskiptavini sína, liggjandi. Af hverju liggjandi. JÚ vegna þess að þeir geta enga björg sér veitt.

Dæmi:

Segjum að Jón eigi íbúð á 20 milljónir með 100% KB láni. Vilji Jón selja hana, getur kaupandinn ekki yfirtekið lánið á sömu kjörum! Það leiðir til þess að Jón þarf að borga uppgreiðslukostnað við lánið að upphæð 2%. 400 þús! Kaupandinn þarf að taka nýtt lán frá Íbúðalánasjóði og borgar stimpilgjöld ca. 300 þús. ERGO - allir tapa - jah nema Kaupþing.

Löglegt, kannski.

Siðlaust, alveg pottþétt.

Þetta hefur undirstrikað nauðsyn Íbúðalánasjóðs á markaðnum - og það í harðri samkeppni við banka.


Nýr GUÐ, jarðvarma-GUÐ

Æj.....

Ég fæ óþægindatilfinningu í magann þegar Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sér sig knúinn til að tala um orkuútrásina eins og refabúin og fiskeldið. Hann talar um málið eins og trúarleiðtogi - það var eins og Benny Hinn, eða Gunnar í Krossinum væri mættur í viðtal í Silfri Egils til að lýsa trúarsannfæringu sinni á sunnudaginn. Af svo mikilli innlifun og offorsi talaði okkar minester um hina meintu jarðvarmaútrás.

Eins og lítill uppnuminn skólastrákur lýsti hann því þegar forseti Indónesíu opnaði eitthvert herbergi í forsetabústaðnum, "sem þeir höfðu greinilega aldri fengið að sjá inn í " þar átti hann við að hans eigin heimsókn hafi í augum Indónesa verið svo merkileg - í þeirra augum!!!

Það er eitthvað skrítið við þetta allt saman, svo talar hann um 2000 milljarða fjárfestingar, sem er svo há upphæð að erfitt er að tengja hana við raunveruleikann. Almenningur er orðin svo vanur milljarðatali að enginn kveikir á perunni.

Ég segi bara - hugsum um okkar heimamund áður en við förum að leika GUÐ - jarðvarma-GUÐ.

 

Ég er með tillögu: Leyfum einkaaðilum að bjóða í þessa stráka í OR sem vita "allt" um jarðvarma og leyfum þeim að fara til Eþíópíu, Indónesíu, Kína, Filipseyja og annarra ríkja með sínar eigin krónur. Ok?


DV reynir að flikka upp á ímyndina

Mér fannst ég skyldugur til að mæta á uppákomu á Hótel Héraði sem DV menn stóðu fyrir á föstudaginn. Þar töluðu ritstjórar blaðsins um gamlar syndir, og að fyrrverandi ritstjórar hefðu gert afdrifarík mistök. Þeir lögðu áherslu á vandaðra blað. Góðra gjalda vert.

 Í máli Sigurjóns Egilssonar kom fram að honum finndist Spaugstofan ekki lengur fyndin. Þar er ég hjartanlega sammála honum. Hann sagði frá því að hann bíður alltaf eftir að þættinum ljúki til að sjá mistökin við gerð þáttarins sem eru birt í lokin. Þarna get ég verið Síamsbróðir hans - því ég geri hið nákvæmlega sama.

Annars voru fáir sem lögðu leið sína á fundinn.....ætli hafi ekki verið svona sjö frá DV, sjö utan úr bæ og fjórir bæjarfulltrúar frá Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði sem voru mættir til að taka þátt í spurningakeppni DV.


Ósigraðir á heimavelli

Ég fer vel af stað sem handboltaþjálfari. Cool

Í gær vann unglingaflokkur Hattar sinn fyrsta leik á tímabilinu 10-0. Reyndar var það vegna þess að Þróttur frá Reykjavík mætti ekki til leiks í íþróttahúsinu á Egilsstöðum. Þeir eiga yfir höfði sér 100 þúsund króna sekt vegna þessa.

Vona að þetta verði ekki eini sigur okkar í vetur.


Dellingurinn Sigurður K(L)ári enn á bjórkvöldi

Nú vill hin Klári Sigurður Kári banna birtingu á tekjum einstaklinga. Já og tíu aðrir sjálfstæðismenn.

Það er líkt og þeir trúi því að þeir séu enn á bjórkvöldi hjá Heimdalli og þeir geti boðið upp á rökflutning sem þeir í Morfís keppni væru. Í Morfís skiptir ekki máli hvort maður hefur rétt fyrir sér, aðeins hvert hugmyndaflugið tekur þig til að færa rök.

 “Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum."

segja þessir Heimdellingar. Allir vita að trúnaðarsamband á frjálsum vinnumarkaði er ekki til hagsbóta fyrir neina nema atvinnurekendur - þannig vilja þeir vernda atvinnurekendur.

Svo segja Heimdellingar (já þeir hafa hugmyndaflug)

"Leiða má líkur að því að fjölmiðlaumræða af slíku tagi feli í sér hættu á að einstaklingar verði fyrir óverðskuldaðri áreitni vegna tekna sinna, ýmist vegna þess að þær þyki of háar eða of lágar.”

Það var þá!!! Til að vernda borgarann er það ekki? Hef ekki heyrt um neinn sem hefur fengið óverðskuldaða áreitni vegna of lágra tekna!! Hvernig var það með Jón Ólafsson þegar hann greiddi vinnukonuútsvar - var gagnrýni á hann þá óverðskulduð? Er gagnrýni á ofurlaun sumra einstaklinga í samfélaginu óverðskulduð?

 Maðurinn KLÁRI - sem nánast æpir orðið "spilling" við hin minnstu tækifæri vill ýta undir spillingu hvar sem er í þjóðfélaginu með frumvarpinu.

 SVEI ÞÉR! Sigurður K(L)ári.


Ég er fyrirmynd auðkýfinga

Ég bý í sveitó samfélagi, og er sveitó maður. Ég er svo sveitó að ég er að fara á Bændahátið á morgun.

Ég er svo sveitó að ég er að reyna að kaupa mér landskika. Ég er svo sveitó að ég á hesta. Ég er svo sveító að ég rækta hesta. Ég er svo sveitó að stundum fer ég á hestasýningar. Ég er svo sveitó að ég á lopapeysu. Ég er svo sveitó að ég fer oft út að borða í hádeginu í reiðbuxum. Ég er svo sveitó að bíllinn minn angar af hrossalykt. Ég er svo sveitó að stundum anga ég af hrossalykt.

Þótt ég svo svona sveitó þá vilja mjööög margir auðkýfingar verða eins og ég. Kaupa sér rándýra hesta, jarðir, lopapeysur og reiðbuxur í röðum.

Nema þeir mæta ekki á Bændahátíð í Hótel Valaskjálf á morgun.

 bara að pæla.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Ben Þorsteinsson
Einar Ben Þorsteinsson
talar frá Egilsstöðum

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 9757

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband